Umræður og spurningar

1. Hvað hétu foreldrar Maríu meyjar, er eitthvað vitað meira um fjölskyldu hennar, s.s um afa og ömmur, systkini og fleira?

2. Hvað hétu systkini Jesú?

Kæri spyrjandi.

Það er ekki margt vitað með vissu um ætt Maríu meyjar. Í Nýja testamentinu eru engar upplýsingar um hvar eða hvenær María hafi verið fædd né heldur er foreldra hennar getið. Í guðspjöllunum er María ávallt kynnt sem móðir Jesú.

María var eiginkona Jósefs. Í fornöld var litið svo á að giftar konur tilheyrðu ætt eiginmanns síns. Þetta sést vel á ættartölum Jesú, sem er að finna bæði í Matteusar- og Lúkasarguðspjalli. Þar er ætt Jesú rakin í gegnum Jósef föður hans og allt aftur til höfuðfeðra Ísraelsmanna. Um ætt Maríu er ekkert fjallað. Þess er þó getið að Elísabet, kona Sakaría, hafi verið frændkona hennar, sjá 1. kaflann hjá Lúkasi. Þar er Elísabet sögð vera af ætt Arons æðsta prests. Hún er þar af leiðandi af ætt Leví, sem var ein af tólf ættkvíslum Ísraels. Samkvæmt ættartali Jesú var Jósef hins vegar af ætt Júda.

Kvenmannsnafnið María samsvarar hebreska nafninu Mirjam, en systir þeirra Arons og Móse hét einmitt þessu sama nafni. Nafnið er mjög algengt enn þann dag í dag meðal Gyðinga. Stúlkur með þessu nafni eru oft kallaðar gælunafninu Mimi.

Öll guðspjöll Nýja testamentisins og Postulasagan greina frá því að Jesús hafi átt systkini. Í lok 13. kafla Matteusarguðspjalls stendur skrifað: Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? Og eru ekki systur hans allar hjá okkur?

Í trúarritum, sem eru eilítið yngri en Nýja testamentið, svonefndum apókrýfum ritum Heilagrar ritningar er hins vegar að finna meiri upplýsingar um Maríu. Sumir af þeim textum eru reyndar með nokkrum helgisagnablæ og því kannski ekki hægt að fullyrða um hversu marktækir þeir eru í skilningi sagnfræði og ættfræði. Í Jakobsguðspjalli er greint frá því að foreldrar Maríu hafi heitið Jóakim og Anna og þau hafi átt heima í bænum Sepphoris (nefndur á grísku Dioceserea), sem er rétt hjá Nasaret. Hippolytus kirkjufaðir greinir frá því að systir Önnu hafi verið Sobe, móðir Elísabetar. Samkvæmt þessu voru María og Elísabet systradætur.

Við höfum því ekki miklar heimildir um fjölskyldu Maríu Meyjar. Óvíst er hvort hún hafi átt einhver systkini því ofangreind rit minnast ekki á það. Á miðöldum var safnað saman ýmsum helgisögum. Þó svo að þar sé sagt frá atvikum, sem guðspjöllin greina ekki frá, þá bæta þær helgisagnir ekki við miklum upplýsingum um ætt Maríu meyjar.

Með kærri kveðju.
Magnús Erlinsson.
Hvers vegna klæðist fólk svörtu þegar það fer í jarðarför?Litir hafa táknræna merkingu og tala sínu máli. Í okkar vestræna menningarheimi þá er svartur táknrænn fyrir sorg og dauða því klæðumst við honum þegar við förum í jarðaför til að túlka sorgina sem fylgir dauðanum. Þess má geta að t.d á föstudaginn langa þegar minnumst dauða Jesú á krossinum þá er einkennandi litur í kirkjunni svartur.
Hvaða ritningartexta má nota við hjónavígslu?Í Handbók Þjóðkirkjunnar eru gefnir upp nokkrir ritningnartextar sem má nota við hjónavígsluathafnir. Þeir eru sem hér segir:

Matt 19.4-6:

Hann svaraði: Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.

Jóh 13.34-35:

Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.

Gal 6.2:

Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.

Kól 3.12-15:

Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir.

1Kor 13.4-8:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.

Ég vona að þetta komi þér að gagni, annars skaltu ekki hika við að hafa samband aftur,

Árni Svanur

Hafa samband

Sendið okkur ábendingar um starfssemi eða annað sem þið viljið að komi fram á síðunni leitandi.is 

Öllum ábendingum er svarað innan tveggja virkra daga. 

Upplýsingar